Lög Stjórnendafélags Suðurnesja

Samþykkt 6. mars 2018

1. gr. Félagið heitir Stjórnendafélag Suðurnesja. Lén félagsins er http://www.stjornsud.is Það er aðili að Sambandi stjórnendafélaga (STF) og starfar skv. lögum og fyrirmælum þess.

2. gr. Tilgangur félagsins er: a) að auka og efla samvinnu meðal stjórnenda. b) að starfa að þeim málum sem snerta atvinnu þeirra og kjör. c) að styrkja félagsmenn í atvinnuleysi. d) að stofna sjóði til styrktar meðlimum sínum. e) að aðstoða félagsmenn í atvinnuleit.

3. gr. Félagið sem heild hefur engin afskipti af stjórnmálum, eða umræðum um stjórnmál.

4. gr. Félagsmenn geta þeir einir orðið: a) sem hafa stjórnun að aðalstarfi. b) Verði sett lög á alþingi, er kveði á um menntun og hæfni stjórnenda, skulu inntökuskilyrði í félagið tekin til endurskoðunar með hliðsjón af þeim lögum.

5. gr. Umsóknir um inngöngu í félagið skulu færð á þar til gert eyðublað sem S T F gefur út, og eru aðgengileg á heimasíðu félagsins. Umsóknina skal fylla greinilega út og vinnuveitandi skal undirrita hana. Stjórn félagsins fellir svo úrskurð um umsóknir.

6. gr. Árgjöld til sjóða félagsins ákveður aðalfundur ár hvert.

7. gr. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg, en stjórn félagsins metur gildi úrsagnar, sem verður ekki tekin til greina nema viðkomandi sé skuldlaus við félagið.

8. gr. Réttindi félagsmanna eru takmörkuð við lög, samþykktir og fundarsköp félagsins.

9. gr. Ef ágreiningur verður milli vinnuveitanda og félagsmanns og viðkomandi félagi óskar aðstoðar félagsins, er félagsstjórn skylt að reyna að miðla málum þannig að hlutaðeigandi félagi verði ekki fyrir tjóni. Ef aðilar ná ekki samkomulagi, skal félagsstjórn vísa málinu til stjórnar STF sem tekur það til endanlegrar afgreiðslu. Deilumál sem um ræðir í þessari grein skal skoða sem einka- og trúnaðarmál og má ekki ræða þau opinberlega né á félagsfundum nema mjög brýn þörf sé og með samþykki viðkomandi félagsmanns.

10. gr. Skyldur félagsmanna eru: a) að hlýða lögum og reglum félagsins, STF og samningum. b) að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið og STF c) að greiða gjöld sín til félagsins á réttum gjalddaga. d) að halda öllu því sem fram fer á fundum félagsins stranglega innan véband þess, þegar stjórnin krefst þess.

11. gr. Hver félagsmaður sem gengt hefur trúnaðarstarfi fyrir félagið í tvö kjörtímabil samfleytt, getur skorast undan endurkosningu jafnlangan tíma.

12. gr. Falli grunur á félagsmann um að hann hafi gerst sekur í að vinna gegn stefnu félagsins, samþykktum eða samningum, skal stjórn félagsins rannsaka málið eins vel og auðið er. Verði sekt félagsmanns sönnuð, skal stjórnin kveða hann á sinn fund, ræða við hann og gefa honum áminningu. Fari svo að áminning komi ekki að gagni, skal stjórnin víkja manninum úr félaginu án frekari fyrirvara. Leitað getur hann úrskurðar félagsfundar.

13. gr. Hafi félagsmaður vanrækt greiðslu áskilinna gjalda til félagsins, þá getur stjórnin með eins mánaðar fyrirvara tekið af honum félags réttindi. Greiði hann ekki skuld sína að þeim tíma liðnum, getur stjórnin vikið honum úr félaginu með fjórtán daga fyrirvara. Ákvörðun um réttindamissi eða brottvikningu skal vera skrifleg og birt honum á óvéfenginlegan hátt.

14. gr. Félagsmenn mega ekki ganga inn á verksvið hvers annars t.d. með því að bjóða annan frá verki með lægra launa tilboði. Þetta ákvæði gildir fyrir alla félagsmenn hvort sem þeir eru í fastri atvinnu eða ekki.

15. gr. Í öllum kaupdeilum eru félagsmenn algjörlega hlutlausir, hvort sem um er að ræða verkföll eða verkbönn. Skylt skal þó hverjum starf andi félagsmanni að gæta þess verðmætis er hann hefur umsjón með og verja það skemmdum, eftir getu.

16. gr. Aðalfundi skal halda fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Þá gerir stjórnin grein fyrir störfum sínum á liðnu ári og leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins. Aðalfundir eru lögmætir ef til þeirra hefur verið boðað skriflega eða á annan öruggan hátt með sjö daga fyrirvara.

17. gr. Aðalfundi stýrir sérstakur fundarstjóri sem skal kosin með meirihluta atkvæða þeirra sem fundinn sitja, en ekki má kjósa neinn af stjórnendum félagsins. Stjórnin semur dagskrá fyrir fundinn, en að henni lokinni getur fundarstjóri leyft aðrar umræður ef óskað er. Fundarstjóri ritar nafn sitt undir bókun fundarins ásamt fundarritara sem valin er á sama hátt og fundarstjóri.

18. gr. Stjórn félagsins skal skipuð þrem mönnum, formanni, ritara og féhirði. Varastjórn skal skipuð á sama hátt. Kjör þeirra skal fara fram á aðalfundi ár hvert. Þá skal einnig kjósa tvo menn til skoðunar félagsreikninga og mann í stjórn STF, ásamt varamanni. Óski stjórnarmaður ekki eftir endurkjöri skal það tilkynnt Uppstillinganefnd, eigi síðar en 30 dögum fyrir aðalfund. Uppstillinganefnd skal skipuð þremur félögum og er kosin á aðalfundi. Uppstillinganefnd skal auglýsa með áberandi hætti lok skilafrests og hvaða stjórnarmenn eru í kjöri. Tillögum skal fylgja nafn, kennitala, starfsheiti, heimilisfang og heiti vinnustaðar þeirra sem tillaga er gerð um. Tillögum skal fylgja skriflegt samþykki þeirra sem tillaga er gerð um.

19 .gr. Að loknum aðalfundi skal stjórn félagsins senda stjórn S T F skýrslu um störf félagsins á liðnu ári ásamt nafnaskrá þess. Þá skal stjórn félagsins velja fulltrúa á þing S T F . og fulltrúa í stjórn S T F ásamt varamanni.

20. gr. Lögum þessum má ekki breyta, úr þeim né þau auka nema á aðalfundi. Lagabreytinga skal getið í fundarboði.

21. gr. Stjórn félagsins skal að aðalfundi loknum velja úr hópi félagsmanna af ýmsum vinnustöðum, trúnaðarmenn til aðstoðar við framkvæmd félagsmála. Þeir skulu vera stjórninni til ráðuneytis þegar hún óskar þess, aðstoða við innheimtu félagsgjalda, koma boðum til félags-manna o.s.frv.

22. gr. Stjórn félagsins annast öll rekstrarmál félagsins milli aðalfunda. Prókúra fyrir félagið er í höndum gjaldkera og formanns. Kaup og sala fasteigna eru ákveðnar á aðalfundi og skulu báðir prókúruhafar rita nöfn sín þeim til staðfestingar.

23. gr. Formaður félagsins hefur eftirlit með því að stjórnendur og aðrir kjörnir trúnaðarmenn ræki skyldur sínar. Hann kallar saman stjórnarfundi þegar honum finnst þörf, boðar til almennra félags-funda og stjórnar þeim. Hann hefur að öðru leyti á hendi framkvæmdir fyrir félagsins hönd.

24. gr. Stjórnin skal bókfæra störf sín í gerðabók. Þar skal skrá það sem gerist á stjórnarfundum. Öll mál sem tekin eru til umræðu, allar tillögur sem fram koma, niðurstöður í hverju máli o.s.frv. Viðstaddir stjórnendur undirrita svo bókunina að afloknum fundi. Stjórninni er skylt að varðveita öll bréf send og móttekin svo og önnur skilríki er varða félagið og störf þess. Ritari er skyldur að halda félagaskrá.

25. gr. Innheimta félagsgjalda skal hefjast eftir aðalfund ár hvert fyrir yfirstandandi ár í samræmi við ný endurskoðað félagatal. Féhirðir sér um innheimtu á öllum gjöldum til félagsins, hann greiðir öll útgjöld eftir ávísun formanns eða ritara, hann semur reikninga yfir tekjur, gjöld og eignir félagsins og skal afhenda endurskoðendum þá eigi síðar en tíu dögum fyrir aðalfund. Féhirðir varðveitir eignir félagsins og ávaxtar þær. Reiknisár er almanaksárið.

26. gr. Stjórn félagsins fer með málefni orlofshúsa og sér um að þeim sé viðhaldið. Kosin skal orlofsnefnd á aðalfundi og hana skipa þrír aðalmenn. Orlofsnefnd sér um úthlutun orlofshúsa. Þá gerir orlofsnefnd tillögur um rekstur og viðhald orlofshúsa, ásamt umsjón með framkvæmdum og eftirliti með viðhaldi.

27. gr. Komi fram tillaga um að slíta félaginu og ráðstafa eignum þess skal fara með það mál samkvæmt lögum S T F og í samráði við stjórn Samband stjórnendafélaga.